Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá
21/01/2012 - 04/02/2012
Kristín-Jónsdóttir-frá-Munkaþverá_Tauverk.jpg

AUGU ÞESSA HEIMS

Þótt einhverjum þyki himinn og haf milli þrívíðra flóka-og plexíglerverka listakonunnar Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá og tauverka hennar frá 1957-60 eiga þau ýmislegt sameiginlegt. Hvorttveggja eru lágstemmd, stjórnast af ljóðrænu innsæi fremur en rökhyggju, og þótt nýrri verk listakonunnar séu bókstaflega „læsilegri“ fyrir þá virkjun orðanna sem oftsinnis á sér stað í þeim, þá er markmið hennar enn hið sama og í huglægum tauverkunum, að tæpa á tímalausri stemmningu eða ástandi.
Í báðum tilfellum er eftirgefanleiki og gegnsæi efnisins forsenda þess tímaleysis sem listakonan er á höttum eftir. Mjúk formin sem þrykkt eru hvert ofan á annað í eldri verkunum eru ekki lokuð og afdráttarlaus, heldur margvíslega gisin, jafnvel svo tær að djarfar fyrir undirformum og þar með öðrum túlkunarmöguleikum, breytilegum eftir tíma, birtu og áhorfanda. Ekkert er fullyrt, en öllum möguleikum haldið opnum. Hið sama á sér stað í nýrri verkum listakonunnar, þar sem hún kembir ullartog eða ullarlagða yfir grunnfleti eða áletranir, þannig að myndast gegnsæi, og þar með óvissa sem eykur á svigrúm áhorfandans til túlkunar.
Saga tauverkanna, sem eru að stofni þrykk og batíkverk, er merkileg, en hingað til hefur fáum verið kunnugt um tilvist þeirra. Kristín nam við Handíða-og myndlistarskólann þegar strangflatarlistin var að festa sig í sessi í íslensku listalífi. Eins og verkin bera með sér heillaðist listakonan af forsendum þessarar listar, ekki síst hljóðri tónlistinni sem í henni bjó. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn á sjötta áratugnum kynntist hún hins vegar þeirri grósku sem þá átti sér stað í norrænni veflist, og hugsaði sem svo að sennilega gæti hún lifað af ástundun þeirrar listar, en haldið áfram að mála í frístundum.
Þar sem stærstur hluti þessara verka er enn í eigu listakonunnar, er ljóst að þau hafa ekki orðið henni til fjár. Fyrir það megum við vera þakklát; sjaldgæft er að sjá á einum stað svona heildstætt – og sérstætt - safn íslenskra strangflatamynda frá því tímabili sem hér um ræðir.

Aðalsteinn Ingólfsson

Sýningin verður opin alla daga frá kl 14:00-17:00

Dagsetningar: 
21/01/2012 - 04/02/2012

Tengt efni: