Úr vinnustofu Nínu Sæmundsson

Nína Sæmundsson
01/04/2017 - 18/04/2017
Nían Sæm_Model með hatt_olía á striga_76x81cm.jpg

NÍNA SÆMUNDSSON 1892-1965
Nína Sæmundsson fæddist inn í íslenska bændasamfélagið, að Nikulásarhúsum í Fljótshlíð, yngst fimmtán systkina. Hún varð mikið náttúrubarn og trúin á huldar vættir, á borð við álfa og huldufólk, átti eftir að fylgja henni og birtist oft í málverkum hennar og teikningum. Um fermingaraldur fluttist Nína til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni, en hún undi sér ekki á mölinni og fluttist 19 ára gömul til Kaupmannahafnar. Fyrir ungar og efnalitlar alþýðustúlkur var ekki margt í boði, annað en að verða vinnukonur eða ganga í hjónaband.
Eftir undirbúningsnám settist Nína í höggmyndadeild, "Hinnar konunglegu dönsku listaakademíu" og varð fyrsta íslenska konan sem lagði fyrir sig þá listgrein, en á þeim tíma var Einar Jónsson eini starfandi myndhöggvarinn á Íslandi. Á næstu árum ferðaðist Nína víða um Evrópu og bjó m.a. í Róm og í París þar sem hún komst að rótum vestrænnar menningar, þar sem hugmyndir um vestræna listasögu urðu til. En í þann klassíska sjóð leitaði hún aftur og aftur. Hún þróar brátt sinn persónulega stíl, þar sem hún sameinar hið stórbrotna og innilega, en hin uppreista manneskja var eitt af helstu þemum hennar. Nína var vantrúuð á að hún gæti skapað sér listferil í Evrópu, ekki hvað síst á Íslandi, í upphafi þriðja áratugarins, þar sem engin kona gat á þessun tima framfleytt sér á myndlist.
Eftir að hafa komið heim til Íslands árið 1925, með styttuna "Móðurást" sem stendur í Mæðragarðinum í Lækjargötu, hélt hún, líkt og margt ungt fólk um allan heim, til Bandaríkjanna, þar sem mikil efnahagsuppsveifla hafði átt sér stað. Hún settist að i New York og varð fljótt sýnileg í myndlistarflóru borgarinnar og eftir að hafa sigrað í alþjóðlegri samkeppni um táknmynd fyrir Waldorf Astoria hótelið þar í borg, flaug nafn hennar yfir gervöll Bandaríkin.
Eftir kreppuna miklu 1929, drógst listaverkamarkaðurinn saman, og listamenn leituðu sér farborða á öðrum sviðum og þar var ekki hvað síst kvikmyndaiðnaðurinn í Kaliforníu sem heillaði. Nína og sambýliskona hennar, handritshöfundurinn Polly James, fluttu til Hollywood og Nína sem var iðin við sýningarhald varð brátt eftirsóttur portrett málari.
Í Kaliforníu sýndi hún iðulega saman höggmyndir sínar, málverk og teikningar en síðustu árin þar einbeitti hún sér að landslagsmyndum og portrettum og en verkin hér á sýningunni eru mörg frá þeim tíma. Nína sneri loks heim til Íslands árið 1955 en lést úr krabbameini árið 1965.

Hrafnhildur Schram

Dagsetningar: 
01/04/2017 - 18/04/2017