Portrait - Helgi Þorgils Friðjónsson

Helgi Þorgils Friðjónsson
10/03/2012 - 24/03/2012
Portrait_Olía-á-striga-70-55cm.jpg

Sýning Helga Þorgils Friðjónssonar samanstendur af portraitverkum unnin á síðustu árum í olíu á striga og teiknuðum kolamyndum á striga.
Opnun sýningairnnar er laugardaginn 10. mars kl. 16:00 og lýkur sunnudaginn 24. mars 2012. Sýningin er opin kl. 14-17 alla daga nema mánudaga.

Portrait.
,,Fyrir all löngu las ég ritgerðir Þeófrastosar um manngerðir. Flestar manngerðirnar sem eru til nefndar hafa neikvæða eiginleika, svo sem að þær eru hrokafullar, eða smjaðrarar, eða eru haldnar meinfýsni. Teikningar sem fylgja eru af mönnum sem eru íktar erkitýpur eiginleikanna, sem hægt er að þekkja í teikningum skopteiknara og listamanna alveg fram á þennan dag. Í forspjalli segir að Þeófrastos furði að skapferli Grikkja sé ekki líkara en raun ber vitni, þegar þeir fá svipað uppeldi og lifi við svipað veðurfar. Talið er að þessar manngerðir séu pólitískar yfirlýsingar tengdar ráðandi öflum á þessum tíma.
Í innganginum að þessari útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags, segir frá stjórnarháttum tímans. Þeófrastos er fæddur 372 fyrir okkar tímatal. Þá koma stjórnvöld og fara. Heimspekingar eru teknir af lífi ásamt stjórnarherrum, ef þeim tekst ekki að forða sér í tæka tíð, að því er virðist handahófskennt, þegar nýir menn koma fram. Segja má að sagan sé líka yfirlýsing um manngerðir í sjálfu sér.
Aðrar kenningar eru um að andlitsgerðin segi til um manninn, eða staða himintungla við fæðingu móti persónuna o.s.frv.
Ég hef nánast alla tíð gripið í það að mála andlitsmyndir. 1990 sýndi ég safn þeirra með Hallgrími Helgasyni á Kjarvalsstöðum. Rétt fyrir aldarmótin 2000 byrjaði ég svo markvisst á þessari myndröð. Ég hef valið fólk af götunni, eða af mannamótum, oft fólk sem ég þekki ekki neitt. Ég held að í undirmeðvitundinni velji ég ákveðnar manngerðir. Þær eru mun flóknari en þessar erkitípur. Ég hef forðast öll skopleg einkenni og valið reist og ágætt fólk.
Í upphafi, í kringum 1980, var þessi portrait gerð einskonar andóf gegn þeirri almennu skoðun í listheiminum, að portretgerð væri úrelt listform og gelt, að minnsta kosti í málverki, og eingöngu fyrir yfirvald til að skreyta stássstofur sínar með og undirstrika eigið ágæti. Þeir sem máluðu andlitsmyndir á listrænum forsendum, afskræmdu manneskjuna oftast með t.d. stóru nefi eða eyrum, teygðum munni og skökkum augum. Erkitípísk lífsangist. Ég ákvað að koma hinum megin frá, og hef frekar valið að fara hina leiðina, og valið það sem mér þykir fallegt fólk og látið það sitja fyrir og tala sig inn í myndina á meðan hún er máluð. Orðið fallegt er hér notað í stærra samhengi en yfirborðsfegurð.
Þegar ég ákvað að gera þessi portrait að myndröð rétt fyrir 2000, fór ég smá saman að færa myndirnar yfir í eina fasta stærð, og þá varð hugmyndin skírari um að þetta væri einskonar safn. Því stærra safn, því fleiri manngerðir. Það er hægt að hugsa um það sem segir í forspjalli Þeófrastosar, að það gegni nokkurri furðu að þessar persónur séu ekki líkari en raun ber vitni, sem allar eru þó fæddar undir sama himni. Ég hef valið að stilla persónunum upp með svipuðum hætti og þeim er stillt upp fyrir passamyndatöku."

Helgi Þorgils Friðjónsson

Dagsetningar: 
10/03/2012 - 24/03/2012